Project Description

Ármót

Ármót. Það merkilega við þá flugu er að hún er næstum útdauð!
Kolbeinn Grímsson segist hafa hnýtt hana eitt sinn meðan beðið var eftir bíl til að fara austur í birting. Hún er eingöngu hnýtt með gerviefni, sem ekki virðist nokkur leið að fá keypt lengur og hún er hvergi til. „Mr. Bass keypti allar“ segir Kolbeinn um einhvern ríkasta mann heims sem kom hingað í veiðitúr með fríðu föruneyti á þremur einkaþotum. „Konan kom frá Róm af því að hún var fatalaus“ segir Kolbeinn, „…karlinn á sinni vél, en gestir hans í þeirri þriðju“. Svo renndi leigubíll upp að litlu bílskúrsbúðinni þeirra Kolbeins og Þorsteins, Ármótum, sem veiðimenn þekkja af Flókagötunni. Eftir búðinni var flugan nefnd. „Hann kom inn og bað um fluguna Ármót og keypti þær allar“ segir Kolbeinn um þessa viðskiptaferð karlsins. Það var ekki nóg með að allar flugur væru farnar úr búðinni, heldur efnið í hana búið. Kolbeinn á tvö síðustu eintökin sem nú eru eftir á jarðríki, eftir því sem best er vitað. Grefur aðra þeirra upp og sýnir. Ármót er gerð úr einhvers konar úfnu plastglitbandi. Blátt á legg, með silfurvafi. Skottið er skærgult, sömuleiðis úr plastkendu glitefni. Skegg blátt, líka glitofið, þræðir virðast mjög hrjúfir viðkomu, sama efni í væng. Haus flúrljómaður, appelsínugulur. Þetta er stór og vígaleg straumfluga. Ögn undarleg yfirlitum, því hún minnir í fasi og svipmóti á gervi jólatré. Það eru fáir sem eiga hana og enginn sem getur hnýtt hana. Þar sem hún lýsir upp herbergið rifjast upp sögur Kolbeins af risabirtingum, 14 punda tröllum sem tóku hana.

Straumflugukrókur leggjalangur stærð 2-8.
Tvinni: Fire orange 8/0
Stél: Lurflash Luminous Twingle gult.
Vöf: Ávallt silfur.
Búkur: Lureflash fiscale bodytube blue pearl in to sea green.
Skegg: Lureflash Twingle milliblár.
Undirvængur: Lureflash Twingle hvít.
Yfirvængur: Lureflash Twingle milliblár.
Haus : Fire orange.